HEIM | Heimagistingin | Tjaldstæðið | Staðsetning | Afþreying | Áhugaverðir staðir | Fjarlægðir | Myndir | Um okkur | English |


  Ártún,
  601 Akureyri
  Símar:
        463 3267
        892 3591

  www.artun.is

   Senda fyrirspurn

 

Útgerðarminjasafnið á Grenivík stendur við Sæland á Grenivík, í Hlíðarenda, gömlum beitningaskúr, byggðum 1920 af Stefáni Stefánssyni útgerðarmanni á Miðgörðum. Á fyrsta ári Hlíðarenda var húsið notað sem skipasmíðastöð. Þar var báturinn Hermann TH34 smíðaður en hann var hálfan fjórða áratug gerður út frá Grenivík og síðar Akureyri og er nú kominn í eigu safnsins. Mest var húsið notað sem beitningaskúr en skúrböllin sem þar voru haldin eru líka sérstæður hluti af menningarsögu Grenivíkur. Síðustu áratugina var Hlíðarendi aðallega nýttur sem geymsla fyrir ýmiss konar útgerðarbúnað.
Viðgerðir á Hlíðarendaskúrnum hófust fyrir nokkrum árum með það að markmiði að varðveita útgerðarsögu Grýtubakkahrepps, sem er býsna merkileg, með því að opna þar útgerðarminjasafn með áherslu á línuútgerð. Það er nú orðið að veruleika.
Safnið er lokað yfir vetrartímann.

 

Gamli bærinn í Laufási Laufás kemur við sögu skömmu eftir að Ísland byggðist og þar hefur staðið kirkja frá fyrstu kristni. Prestssetur hefur verið í Laufási frá sama tíma og er enn. Síðasti presturinn sem bjó í gamla bænum, séra Þorvaður Þormar, flutti árið 1936 í nýtt prestssetur og þar bjuggu Laufássprestar fram til ársins 2000. Sú kirkja sem nú stendur í Laufási var byggð 1865. Meðal merkra gripa í eigu kirkjunnar er predikunarstóll sem ber ártalið 1698. Við austurgafl kirkjunnar stendur eitt elsta reynitré landsins frá 1855. Búsetu í Laufási má rekja allt aftur til heiðni en í elsta hluta gamla bæjarins sem nú stendur er talið að séu viðir allt frá 16. og 17. öld. Bærinn var endurbyggður af mikilli reisn í tíð séra Björns Halldórssonar sem sat staðinn árin 1853-1882. Laufásbærinn er stílhreinn burstabær, dæmigerður fyrir íslenska bæjagerð þess tíma, en þó allmiklu stærri. Algengt var að tuttugu til þrjátíu manns væru til heimilis í Laufási, því margt vinnufólk þurfti til að nytja þessa gróðursælu kostajörð en henni fylgdu mikil hlunnindi. Laufásbærinn er nú búinn húsmunum og áhöldum líkast því sem tíðkaðist í kringum aldamótin 1900. Á veturna eftir opið eftir samkomulagi. Í þjónustuhúsi er minjagripaverslun og veitingastaður þar sem hægt er að kaupa þjóðlegar veitingar.

 

Fjölskrúðugt fuglalíf - Þingeyjarsýslur eru þekktar fyrir fjölskrúðugt fuglalíf og þar er að finna einhver þekktustu fuglasvæði á Íslandi. Af þeim 75 tegundum sem taldar eru til íslenskra varpfugla verpa 62 árlega í Þingeyjarsýslum. Auk þeirra er ætíð eitthvað um umferðar- og flækingsfugla og má því búast við að sjá meira en 70 tegundir á góðum vordegi. Hvergi annars staðar á Íslandi má finna fleiri tegundir á jafn afmörkuðu landsvæði. Grundvöllur tegundafjölbreytninnar eru fjölbreytileg búsvæði sem iða af lífi frá vori fram á haust. Inn til landsins eru fuglarík búsvæði sem eru aðalheimkynni nokkurra tegunda hér á landi, s.s. flórgoða, gargandar, hrafnsandar, húsandar, straumandar, rjúpu og fálka. Sumar þessara tegunda finnast vart utan Þingeyjarsýslna. Út við ströndina eru einnig fjölbreytt og fuglarík búsvæði, allt frá lífríkum fjörum upp í stór fuglabjörg með tugþúsundum fugla þar sem aðgengi að súlu og stuttnefju er einstakt. Það má því með sanni segja að fuglaskoðun í Þingeyjarsýslum sé óviðjafnanleg.


 

Golfvöllurinn í Hvammi, Grýtubakkahreppi - Golfvöllur Golfklúbbsins Hvamms er staðsettur rétt við Grenivík, á afar fallegum og veðursælum stað á jörðunum Hvammi og Jarlsstöðum. Völlurinn er 9 brautir (par 34) og auk þess eru 4 æfingabrautir sem henta sérstaklega vel fyrir byrjendur. Völlurinn var tekinn í notkun sumarið 2004 og er verið að vinna að því að bæta hann, t.d. með endurbótum á teigum og flötum. Nýtt forgjafarmat á vellinum var gefið út í mars 2009. Ekki þarf að bóka teigtíma.
Nánari upplýsingar um golfklúbbinn og golfvöllinn veita Jón Helgi í síma 896-9927 og Þórður í síma 463-3178.


 

Sundlaug Grýtubakkahrepps | Sími 463-3218 - er staðsett við Grenivíkurskóla. Hún var byggð árið 1990. Auk 16 m langrar útilaugar er nýr 8 manna heitur pottur og gufubað. Ný íþróttamiðstöð var byggð við skólann árið 2005 með afgreiðslu, nýjum búningsklefum og líkamsræktarstöð. Sundlaugin er lokuð yfir vetrartímann.
Sundlaugin er opin frá 1. júní, mánudaga, miðvikudaga og föstudaga frá 09:00 - 18:00 - Þriðjudaga og fimmtudaga 06:00 - 18:00, en frá kl. 10:00 - 16:00 um helgar.
Aðgangseyrir: Fullorðnir kr. 300,- Börn yngri en 14 ára: kr. 150,- Frítt fyrir ellilífeyrisþega og öryrkja.

 

Pólarhestar - www.polarhestar.is er hestaleiga sem hefur verið starfandi frá árinu 1985 og býður langar og stuttar hestaferðir um Höfðahverfi, Fjörður, Látraströnd og austur í Þingeyjarsýslu. Þar eru um 100 hestar á járnum og hestar við allra hæfi. Boðið er upp á 1 klst. ferðir til heilsdagsferða daglega frá mars til nóvember. Verðskrá: 1 klst. kr.3.000.- 2 klst. kr. 4.000.-
Hálfsdagsferð (3 klst.) kr. 6.000.- (Kaffi og kökur innifalið eftir reiðtúr).
Dagsferð (6 klst.) kr. 9.000.-(Samlokur í nesti og kaffi og kökur eftir reiðtúr innifalið)
Pólar Hestar eru á Grýtubakka II við austanverðan Eyjafjörð í Grýtubakkahreppi, við þjóðveg 83 í um 20 mínútna akstursfjarlægð frá Akureyri og aðeins 3 mínútna akstursfjarlægð frá Grenivík.
Panta þarf fyrirfram í ferðir í síma 463-3179 / 893-1879 Stefán / 896-1879 Juliane 96-1879 Juliane


 

Fjörðungar Grenivík | Sími 463-3236 | www.fjordungar.com - | joning@emax.is | Fjögurra daga gönguferð um Fjörður og Látraströnd með trússhesta. Lagt er af stað frá Grenivíkurskóla og ekið með hópinn út Leirdalsheiði í gangnamannaskálann að Gili í Hvalvatnsfirði. Þaðan er gengið í Þönglabakka í Þorgeirsfirði sem er gamall kirkjustaður og pressetur. Á degi tvö er gengið í Keflavík sem er gömul jörð við samnefnda vík austan við Gjögurtá. Á þriðja degi er gengið yfir í Látur, höfuðból á Látrastönd og á fjórða og síðasta degi er Látraströndin gengin og inn í Svínárnes. Þar bíður bíll sem flytur ferðalanga til Grenivíkur. Þegar komið er til baka er farið í sund og heitan pott til að ná úr sér þreytu og harðsperrum. Í ferðalok er slegið upp veglegri veislu og ferðalangar slaka á eftir eftirminnilega ferð. Salernisaðstaða með rennandi vatni er á öllum náttstöðum sem og þvottavaskur með köldu vatni. Hestarnir bera tjöldin og viðlegubúnaðinn en göngufólkið ber aukaföt og nesti dagsins.

 

Kaldbaksferðir Grenivík | Sími 867-3770 | www.kaldbaksferdir.com - eru með snjótroðaraferðir upp á Kaldbak (1,173 m), hæsta tind við norðanverðan Eyjafjörð. Kaldbaksferðir eiga tvo snjótroðara sem útbúnir eru með opnu farþegarými. Annar bíllinn tekur 20 farþega og hinn 32. Fastar ferðir eru upp á Kaldbak alla daga ef veður leyfir frá janúar til maí.
Lagt er af stað frá aðstöðuplani rétt norðan við þorpið Grenivík og tekur ferðin upp um 45 mínútur. Uppi á toppnum er stoppað í um 15 mínútur og gefst þá góður tími til að njóta útsýnisins sem er hreint ótrúlegt. Bílstjórar eru ólatir við að fræða farþega um það sem fyrir augu ber. Einnig er góður siður að skrifa nafn sitt í gestabókina.
Troðarinn fer sömu leið niður og geta farþegarnir valið annað hvort að fara með honum aftur eða renna sér niður brekkurnar á skíðum, brettum, sleðum eða snjóþotum. Hægt er að fá lánaða snjóþotu ef ævintýraþráin tekur völdin.
Farnar eru 3 ferðir á dag, kl. 10:00, 13:00 og 16:00. Hópar geta samið um annan tíma ef það hentar betur. Lágmarksfjöldi í ferð eru 10 fullorðnir. Nauðsynlegt er að panta fyrirfram í ferðir í síma 867-3770.
Ekið er út með Eyjarfirði að austan eftir þjóðvegi 83 til Grenivíkur. Við skólann er beygt til hægri eftir Lundsbraut og merkingum síðan fylgt að aðstöðuplani Kaldbaksferða.


 

Vetrarparadís í Kaldbak, draumur vélsleðamannsins Sumarið 2005 stofnuðu KEA og Grýtubakkahreppur samstarfshópinn „Kaldbakur kallar", sem hafði það að markmiði að auðvelda útivistarfólki aðgengi að fjallinu Kaldbaki við austanverðan Eyjafjörð. Margir hafa viljað halda því fram að aflíðandi hlíð Kaldbaks sé lengsta og um margt skemmtilegasta skíðabrekka landsins og það sem meira er að snjór er lengur í hlíðum Kaldbaks en í mörgum öðrum fjöllum við Eyjafjörð. Undirbúin var gerð vegar frá Grenivík upp í Grenjárdal í sunnanverðum Kaldbaki. Hafist var handa og lauk uppbyggingu fyrsta hluta Kaldbaksvegar vorið 2006 en þá var búið að gera um 4000 fm2 plan við enda vegarins í 200 m hæð. Tæpu einu og hálfu ári síðar eða um mánaðamótin sept/okt 2007 lauk framkvæmdum við Kaldbaksveg en þá var heildarlengd vegarins frá Hólakoti upp á Grenjárdal í um 400 m hæð orðin um 2,5 km með fjórum bílaplönum sem samtals eru um 6500 fm2 þar sem útivistarfólk getur athafnað sig. Tilkoma Kaldbaksvegar þýðir gjörbreyttar aðstæður fyrir útivistarfólk, það kemst mun lengur fram á vorið í snjóinn. Grýtubakkahreppur, Vegagerð ríkisins, KEA og Vélsleðamenn í Eyjafirði báru kostnaðinn af framkvæmdinni. Þessi vegur er fyrst og fremst ætlaður fyrir útivistarfólk, s.s. þá sem fara með snjótroðaranum upp á Kaldbak, vélsleðamenn, skíðafólk, brettafók, göngufólk o.fl.

 

Fjallaferðir og ökuleiðir út í óbyggðir
Ófáar gönguleiðir eru á fjöll í Grýtubakkahreppi.
Eins er hægt að skella sér í bílferð útí óbyggðir, en til þess þarf góðan jeppa.

Hér fyrir neðan eru nokkrar stuttar lýsingar á göngu- og ökuferðum sem hægt er að fara frá Ártúni á einum degi eða nokkrum klukkutímum.


 

Ganga á Þengilhöfða - Þengilhöfði er aðeins 260 m á hæð. Upp á hann er auðveld, merkt gönguleið sem röskur göngumaður kemst á 25 mínútum. Best er þó að gefa sér tíma og dóla. Þegar líður á sumarið er hægt að gleyma sér við bláber og krækiber á leiðinni. Uppi á Höfðanum er fallegt útsýni yfir allan fjörðinn og fjallahringinn.

Vegur liggur frá Víkinni upp á Skælu, sem er standberg nyrst á Höfðanum. Þar má við hagstæð skilyrði á sumrin sjá sólina setjast í miðjum firði.


 

Ganga á Laufáshnjúk - Laufáshnjúkur er 662 m hár. Auðvelt að komast upp á hann en síðasti hlutinn er þó nokkuð brattur. Uppi er konunglegt útsýni yfir fjörðinn enda eru sagnir, og jafnvel nokkur merki, um að konungur fuglanna hafi áður átt hreiður á toppnum. Í arnarhreiðrinu má finna ótrúlega margar plöntutegundir.
Hægt er að fara sömu leið niður eða ganga suður eftir fjallgarðinum alveg suður á Víkurskarð.



 

Ganga á Kaldbak - Kaldbakur er konungur eyfirskra fjalla, 1173 m hár, og hæstur tinda við norðanverðan Eyjafjörð, með útsýni allt austur á Langanes og langt inn á hálendi Íslands. Hann er talinn vera ein af orkustöðvum Íslands og ferð upp á hann er ógleymanleg lífsreynsla. Gönguferð upp á fjallið tekur um þrjár klukkustundir. Fjallið er flatt ofan og er víðsýnið ótrúlegt. Á norðurbrúninni er varða sem hlaðin var af dönsku herforingjastjórninni árið 1914, og í henni er gestabók. Er varðan talinn vísir að fyrstu landmælingum á Íslandi. Frá Áramótum og fram á vor standa Kaldbaksferðir fyrir vinsælum ferðum, með snjótroðara, upp á topp.

 

Ganga á Grenivíkurfjall - Fjallið ofan við Grenivík, sunnan við Kaldbak, heitir Grenivíkurfjall. Gangan upp er auðveld, yfir móa og mela og þarf ekki endilega að velja einhverja sérstaka leið. Þar uppi í 500 m hæð blasir allur fjörðurinn við augum. Ef menn vilja ekki fara sömu leið til baka er skemmtilegt að ganga suður eftir fjallinu og koma niður hjá Hvammi.




 

Ganga á Blámannshatt - Skessuhrygg Um nokkrar leiðir er að ræða upp, misjafnlega langar og brattar. Hægt er að fara beint upp með Blámannshnjúknum, eða upp úr Grýtuskálinni eða fara á bíl út að Gljúfurárvaði og ganga inn eftir Leirdal og Þjófadal og koma upp á fjallgarðinn ofan við Grýtuskálina. Fara þaðan eftir egginni suður á Blámannshatt. Þar er gríðarlega fallegt að horfa yfir Eyjafjörðinn. Blámannshatturinn sjálfur er ekki nema 1166 m hár en hryggurinn austan við hann, Skessuhryggurinn, er 1214 m. Þegar kemur þangað upp má í góðu skyggni sjá bæði Herðubreið og Öræfajökul. Hægt er að fara beinustu leið niður en skemmtilegast er að fara suður alla eggina og koma niður hjá Skarði í Dalsmynni.

 

Ganga á Sveigsfjall - Til að komast út á Sveigsfjall er best að fara upp Grenivíkurfjall og taka stefnuna í norður, upp á Stórafjall og áfram sem leið liggur út eggina út á Sveigsfjall. Hæsti hluti leiðarinnar fer yfir 900 m en Sveigsfjall sjálft á norðurenda fjallgarðsins er nokkru lægra. Sé farið norður af fjallinu er komið niður í Gil. Einnig er hægt að fara austur af því og koma niður á Hávörður. Þangað er hægt að láta sækja sig á bíl eða ganga til baka inn Leirdalsheiði. Í þessa ferð þarf að ætla sér góðan tíma því þetta er talsverð vegalengd. Annar möguleiki er sá að fara í bíl út á Hávörður og ganga þaðan á fjallið og sömu leið til baka eða þá inn eftir egginni, öfugt við leiðina sem áður var lýst.

 

Ganga um Trölladal - Leiðin á Trölladal liggur upp Grenivíkurfjallið sunnan við Grenjá og áfram út Grenjárdal út á Þröskuld sem er allhár hryggur milli Kaldbaks og Stórafjalls. Norðan við Þröskuld tekur Trölladalur við og opnast í norðurendann úti við Gil. Þegar kemur niður í dalinn utan við Þröskuld er ferðalangurinn umlukinn tröllslegum fjöllum á alla vegu, að því séð verður, í grýttu og gróðursnauðu landslagi. Smám saman opnast sýn út í Hvalvatnsfjörð og gróður verður um leið fjölbreyttari. Götur eru greiðar út að Gili. Hægt er að lengja ferðina með því að fara inn Þverdal, sem gengur vestur úr Trölladalnum, upp á Skörðin og niður í Hóls- og Bakkadal og enda daginn á Þönglabakka.

 

Bílferð í Hvalvatnsfjörð - Góður jeppavegur er frá Grenivíkurvegi, sunnan við Gljúfurá út Leirdalsheiði alveg út að sjó utan við Kaðalstaði í Hvalvatnsfirði. Leiðin frá Grenivík er rúmlega 30 km. og ekki sérlega fljótfarin eftir að farið er út af þjóðvegi. Ekki er ráðlegt að fara þessa leið á fólksbíl. Hægt er að fá gistingu í skálanum á Gili gegn gjaldi, en landvörður hefur þar aðsetur yfir sumarið. Á Kaðalstöðum er hægt að tjalda og þar er snyrting með vatnssalerni. Vinsælt er að ganga frá Kaðalstöðum vestur yfir engið, yfir göngubrúna hjá Tindriðastöðum og vestur yfir Hálsana að Þönglabakka. Það er um 5 km. leið. Upplagt er að koma við á Þorgeirshöfða í leiðinni og líta á Nykurtjörnina sem er þar uppi.

 

Bílferð á Flateyjardal - Frá Grenivík eru um 18 km. að Þverá í Dalsmynni þar sem vegurinn liggur frá þjóðveginum um Flateyjardalsheiði út á Flateyjardal. Frá Þverá út að Vík á Flateyjardal eru um 35 km. Vegurinn er fær flestum bílum en ár sem þarf að fara yfir geta orðið ófærar fólksbílum. Miðja vegu eru Heiðarhús, vistlegt sæluhús þar sem hægt er að fá gistingu gegn gjaldi. Á þessari leið er tignarlegt landslag og eyðibyggð með mikla sögu. Nokkur býli voru á heiðinni en mest var byggðin úti við sjó.

 

Bílferð um Látraströnd - Þokkalega góður jeppavegur liggur út Látrastönd alveg út að Grímsnesi, næstysta bæ á ströndinni. Leiðin er um 15 km. frá Grenivík. Látraströndin er brött og hrikaleg en kemur mörgum á óvart fyrir grösugt undirlendi. Þar er að finna afar fjölbreytta flóru. Vegurinn liggur framhjá bæjarrústum í Hringsdal, á Svínárnesi, Miðhúsum og Skeri og endar á hlaðinu á Grímsnesi.
Á sumrin má víða finna gott berjaland á Látraströnd.

 

Stutt er til Grenivíkur í aukna þjónustu svo sem verlsun, sundlaug, golfvöll, útgerðarminjasafn, gallery og fleira. Úrval áhugaverðra staða er í nágrenni Ártúns sem vert er að skoða svo sem Minjasafnið í Laufási. Fallegar gönguleiðir, fjölskrúðugt fuglalíf, hestferðir í nágrenninu, sólsetur á heimsmælikvarða og fleira sem heillar

 

3 notaleg tveggja manna herbergi, á sérhæð, með setustofu. Sér snyrting með sturtu. Ný vönduð rúm, möguleiki á aukadýnum. Vínveitingar Morgunverður fylgir heimagistingu - Heimilisveitingar eftir nánara samkomulagi. Reykingar eru bannaðar í heimagistingu. Þráðlaust netsamband Sjónvarp í setustofu heimagistingar Næg stæði fyrir húsbíla, rafmagn, seyrulosun. Almennt tjaldstæði, snyrting, inniaðstaða til mötunar og uppvasks Handverk til sölu á staðnum Tekið við öllum gerðum korta Áhugaverðir staðir í næsta nágrenni Sundlaug er í 8km. fjarlægð Hestaferðir í boði í 4 km. fjarlægð Golfvöllur í 8 km. fjarlægð Vinsælar gönguleiðir Fjölskrúðugt fuglalíf Kaldbakur(8km) og nágrenni hans er eitt alvinsælasta sleðasvæði landsins
©2010 - 2015 | Ártún ferðaþjónusta, Ártún 601 Akureyri | 463 3267 & 892 3591 | artun@artun.is